Bein lýsing á graðhesta ríkisstjórninni

Frjáls nauðgun auðlinda

AUÐUR JÓNSDÓTTIR RITHÖFUNDUR


umhverfisráðherra_opt

Í Þýskalandi eru bæði vændi og vændiskaup lögleg. Þannig hefur málum verið háttað í meira en áratug og því er komin nokkur reynsla á lögleysuna, ef svo má segja. Hún átti jú að stuðla að bættu starfs­öryggi vændisfólks, greiða aðgang þess að heilbrigðis­kerfinu og færa þjóðarbúinu skattpeninga. En með þessu móti er verið að normalísera vændi og stuðla að fjölgun vændiskvenna, segja sumir. Og þeir sömu segja að þýska ríkið sé helsti hórumangarinn í stærsta hóruhúsi heimsins: Þýskalandi. Þessar raddir urðu háværari eftir að sjónvarpsstöðin ARD sýndi heimildarmynd um vændi í Þýskalandi. Þar höfðu faldar myndavélar tekið upp heldur svarta mynd í dumbrauðum herbergjum hóruhúsanna og við blasir atvinnu­grein sem gengur út að gernýta kvenlíkamann. Samkvæmt umfjöllun fjölmiðilsins The Local um þessa heimildar­mynd er búið að gera konur að auðlind sem er nýtt til fullnustu.

Hóruhlaðborð

Þýskaland er ekki bara eitt stærsta hóruhús heimsins heldur stefnir það líka í að verða eitt hið ódýrasta. Í Berlín einni eru um fimm hundruð hóruhús og talið er að í Þýskalandi kaupi daglega um ein milljón karlmanna sér þjónustu vændiskonu. Hóruhúsin eru víða um borgina, skammt frá leikskóla sonar míns er til dæmis eitt af þessum vinsælu hóruhlaðborðum. Það kostar 49 evrur að fara á hóruhlaðborð og háma í sig eins margar konur og maður getur í sig látið á klukkutíma eða svo. Sagan segir að fæstir hafi lyst á fleirum en einni eða tveimur, í mesta lagi þremur, þó er gaman að gorta og menn þykjast gjarnan hafa innbyrt meira en þeir gátu. Þeir allra hörðustu borga 99 evrur fyrir nóttina og fylgir þá áfengi með konunum. Hamingjusamur kúnni líkti þýskum hóruhúsum við lágvöruverðskeðjuna Aldi, svipað fyrirbæri og Bónus á Íslandi.
Hóruhlaðborðin eru hákapítalískt fyrirbrigði. Eigendur þeirra þéna á tá og fingri meðan konurnar sjálfar bera skarðan hlut frá borði. Eins hafa þau gengisfellt matseðla úti á götuhornum þannig að nú geta hagsýnir menn jafnvel keypt sér tippasleik fyrir einn Big-Mac. Þetta takmarkalausa frelsi á markaðstorgi vændisins hefur einnig aukið mansal; það auðveldar samviskulausu fólki að víla og díla með auðlindina stúlkur-frá-útlöndum eins og Búlgaríu og Rúmeníu, allt í nafni frelsisins, enda eru erlendar vændiskonur nú í meirihluta, þó að ég þori ekki að fullyrða hversu margar ríði svart og hversu margar borgi skatt.

Neytendur auðlinda

Til hvers eru auðlindir ef ekki til að nýta þær eftir fremsta megni? Til hvers að meta auðlind ómetanlega þegar hægt er að selja hana hratt og ódýrt? Til hvers að huga að vandkvæðum þeim sem geta fylgt skorti á lögum og reglugerðum þegar frelsið seður neytandann á augnabliki? Til hvers að hugsa um framtíðina þegar nóttin er ung? Til hvers að hugsa um börn hórunnar andspænis girnilegum (en útjöskuðum) líkama hennar?
Að annarri auðlind: íslenskri náttúru.
Undanfarið hefur borið á því að lög og reglugerðir sem eru í burðarliðnum til að vernda íslenska náttúru hafi farið fyrir brjóstið á sitjandi ríkisstjórn, þá einkum og sér í lagi ráðherra umhverfismála. Jafnvel þannig að ætla mætti að maðurinn hefði aldrei heyrt um alþjóðlega sáttmála né mikil­vægi þess að þjóðir taki höndum saman í umhverfismálum og lagi til hver í sínum ranni. Að hver þjóð sýni gott fordæmi ef það á að vera einhver von til þess að börn heimsins eygi framtíð fyrir börnin sín.

Náttúruverndarlögin í stuttu máli

Síðast bárust fréttir af því að ráðherra þessum væri uppsigað við náttúruverndarlögin sem áttu að taka gildi 1. apríl 2014.
Í stuttu máli eru nýju lögin bæði umfangsmeiri og heildstæðari en gildandi lög (lögin frá 1999). Með nýju lögunum er verið að leiða nýjar aðferðir inn í íslenska náttúruverndar­löggjöf í því skyni að tryggja betri árangur í náttúruvernd og uppfylla um leið þær skyldur sem Ísland hefur gengist undir með aðild að ýmsum alþjóðlegum samningum. Á undanförnum árum hefur Ísland dregist aftur úr öðrum Evrópuþjóðum á sviði náttúruverndar og er nýju lögunum ætlað að snúa þeirri þróun við. Í lögunum eru lögð fram ítarlegri markmiðs­ákvæði og meginreglur umhverfisréttar settar í lagabúning. Rauði þráðurinn er að taka upp vinnulag Ríósamningsins um líffræðilega fjölbreytni, eins og aðrar þjóðir hafa gert, en leiðtogafundurinn um sjálfbæra þróun í Jóhannesar­borg 2002 hvatti til að allar þjóðir tækju það vinnulag upp eigi síðar en árið 2010. Vinnulagið byggir á svokallaðri vistkerfisnálgun sem beita skal við vernd og nýtingu náttúruauðlinda til lands og sjávar.

Vistkerfisnálgun er aðferð sem miðar að vernd og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda með sanngirni að leiðarljósi. Hún gerir ráð fyrir að fylgst sé með lykilþáttum vistkerfisins og brugðist án tafar við breytingum á þeim. Vistkerfis­nálgunin er útfærð í nýju lögunum með áherslu á skipulega skráningu og flokkun náttúrunnar, áætlanir um skipulega vernd hennar, t.d. með neti verndarsvæða, og á árangursríka vöktun lykilþátta lífríkisins. Lögin byggja á faglegum og traustum grunni sem lagður var með viðamikilli skýrslu: Náttúruvernd, hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands – en hún kom út í ágúst 2011 eftir nokkurra ára undirbúningsstarf. Þessu starfi og nýju lögunum vill ráðherra umhverfismála kasta fyrir róða og byrja upp á nýtt en færir ekki rök fyrir þeirri ákvörðun sinni. Segir bara að í lögunum sé of mikið um boð og bönn. Eitthvað svipað sögðu eigendur þýskra hóruhúsa á sínum tíma.

Almannaréttur víkur fyrir jeppum

Í lögunum er almannaréttur styrktur, stjórnsýsla náttúruverndar styrkt og náttúruminjaskrá ásamt framkvæmda­áætlun gerð að meginstjórntæki náttúruverndar á Íslandi. Þar er jafnframt brugðist við hættu sem fylgir innflutningi jafnt sem dreifingu framandi lífvera og stjórnvöldum veittar auknar heimildir til að bregðast við brotum gegn ákvæðum laganna. Fleira mætti nefna …

Það sem helst virðist fara fyrir brjóstið á nýja ráðherranum er að í lögunum er brugðist við akstri utan vega, sem hefur verið mikið vandamál og erfitt að taka á vegna veikra lagaákvæða. Einnig virðist hann hafa samúð með skógræktar­fólki sem vill engar hömlur á athafnir sínar í íslenskri náttúru. Það vill fá að planta hverju sem er hvar sem er án afskipta annarra eða nokkurs samráðs, athæfi sem getur ógnað íslenskri náttúru. Ráðherrann virðist líka andvígur því að styrkja vernd tiltekinna vistgerða, vistkerfa og jarðminja eins og lögin gera ráð fyrir; kannski vegna þess að hann vill sem minnstar hömlur á framkvæmdir athafnamanna.
Ef lögin taka ekki gildi mun Ísland halda áfram að dragast aftur úr öðrum þjóðum á sviði náttúruverndar; þannig stendur þjóðin ekki við alþjóðlegar skyldur sínar með fullnægjandi hætti. En skiptir það máli? Skiptir nokkuð annað máli en augnabliks fullnægja? Af hverju megum við ekki bara riðlast á íslenskri náttúru á stóra jeppanum okkar? Af hverju er ekki sniðugt að gróðursetja pálmatré á Látrabjargi?

Vestrænt svall

Ráðherra umhverfismála setur einnig sáttina sem náðist um flokkun virkjunarkosta í uppnám og hunsar þannig margra ára þverfaglegt starf vísindamanna. Hann krefst þess að verkefnastjórn rammaáætlunar endurskoði átta virkjunarkosti hið bráðasta með það fyrir augum að koma þeim strax í nýtingarflokk. Þar á meðal eru Þjórsárvirkjanirnar þrjár sem settar voru í biðflokk vegna skorts á gögnum um laxfiska í ánni. Jafnframt stöðvar hann friðun svæða í verndarflokki sem kveðið er á um í samþykkt Alþingis og þar ber stækkun friðlandsins í Þjórsárverum hæst.

Einhvern veginn finnst mér að bæði ráðherra umhverfismála og ríkisstjórninni sé sama um öll börnin sem Alþingi á að þjóna. Mér finnst hugsun valdamanna, ef hægt er að tala um hugsun, ná álíka langt og augnabliksgredda hórumangarans. Greddan í peninga. Greddan í ágóða augnabliksins, sama hvað hann kostar. Sama hvern það á eftir að kosta allt sitt. Kannski er fátt vestrænna en fyrirbrigðið eins-og-þú-getur-í-þig-látið-hlaðborð: að éta á sig gat og gefa skít í uppruna hráefnisins, allt sem heitið getur lífræn vottun, bara af því maður getur það. Kaupa nánast sjálfdauða kjúklinga í tíu rotvarnarefnasósum og fara síðan í vinnuna til að selja framtíð barnanna sinna fyrir góðan jeppatúr.

Það er ókurteisi að líkja valdamönnum við hórumangara. Líklega ber það ekki vott um mikla ættjarðarást, að þeirra mati. Gæti stuðlað að sundrungu þjóðar. Svo kannski er betra að segja að þeir séu fulltrúar gamla tímans, stignir inn í nýja tíma. En svo eru alltaf þeir sem segja að náttúran sé auðlind sem beri að gernýta til fullnustu. Þannig sé nútíminn. Þannig séu endalokin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband