29.7.2013 | 13:12
Hótanir um lög á launamenn?
- Nú er áróðurinn hafinn hjá samtökum atvinnurekenda.
- Nú er áróðurinn hafinn hjá samtökum atvinnurekenda.
Gamli framkvæmdastjóri samtaka atvinnurekenda, Þorsteinn Pálsson er látinn ríða á vaðið með því að kalla á lög frá Alþingi um að afturkalla launahækkanir æðstu embættismanna ríkisins er taka mið af launum sambærilegra forstjóra í einkageiranum, samkvæmt lögum.
Forseti ASÍ andmælir slíku inngripi í launamál, því það getur allt eins orðið til þess að lög yrðu sett um allar breytingar á launum launafólks á vinnumarkaði næsta vetur. Margar fyrri ríkisstjórnir núverandi stjórnarflokka hafa sett slík lög á meðan Alþingi hefur verið í sumarleyfi. En hugmynd gamla íhaldsmannsins er að setja slíkum lögum nýtt nafn, eða neyðarlög.
Nú rýkur steypistöðvarprinsinn fram á vígvöllinn og segir að ekki gangi að semja um hækkun á launatöxtum launamanna sem nái 6 7% hækkun á launatöxtum sem eru t.d. innan við fátækramörk. Hann segir að slíkt hleypi á stað óðaverðbólgu.
Rétt eins og launamenn beri einhverja ábyrgð á verðbólgu í þessu landi umfram atvinnurekendur, sem ekki geta rekið sín fyrirtæki og hafa sett þau í þrot. Í stað þess að fjárfest sé í íslensku atvinnulífi, hafa svo nefndir eigendur fyrirtækjanna arðrænt atvinnureksturinn og hefur hann af þeim sökum verið í mikilli stöðnun og raunar afturför í áratugi.
Nú má vænta þess innan nokkurra daga komi Mogginn með sinn áróður gegn öllum launahækkunum. Það er hann vanur að gera þegar flokkur Moggans á aðild að ríkisstjórn.
Flokkurinn og samtök atvinnurekenda vilja reka samtök launamanna í þjóðarsáttarformið með lögum ef ekki vill betur. Þessir aðilar munu reka gamla blóðuga fleyginn í raðir launamanna.
Það er lítill vandi að skerða enn frekar samningsrétt samtaka íslenskra alþýðu. Það hafa þeir oft gert áður og er svo komið að réttur launamanna á Íslandi er mun rýrari en gerist í fjölmörgum löndum Evrópu.
Atvinnurekendur hafa þegar mótað launastefnuna í landinu með því að hækka laun forstjóranna og bankastjóranna í landinu. Þeir geta ekki ætlast til þess að almenningur í landinu sætti sig við eitthvað minna.
Þá hafa launamenn þurft að bera á herðum sér kostnað vegna afskrifta á þúsundum milljarða króna af atvinnurekstrinum og enn eru sömu bossarnir að stjórna fyrirtækjunum. Bossar gjaldþrota eru jafnvel í forsvari fyrir samtök atvinnurekenda og telja sig geta sagt launamönumm hvað eðlilegt sé að þeir fái í launahækkanir.
Hvað ætli hann fái í laun þessi framkvæmdastjóri samtaka atvinnurekenda?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Kjaramál, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 13:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.