28.5.2013 | 21:01
Staðreyndir sem ekki má loka augum fyrir
- Alcoa er komið í ruslflokk og fleiri álfyrirtæki eru á leið í sömu gröfina.
. - Fjármálaráðherrann er þegar farinn að reyna, að hafa áhrif á Landsvirkjun. En draumaálverið í Helguvík getur ekki keypt raforku á eðlilegu verði.
. - Verði sem Landsvirkjun verður að fá fyrir raforkuna. Það er einmitt orkuverðið sem tafið hefur Helguvíkur framkvæmdir en ekki fyrrverandi ríkisstjórn.
. - Er hann að mælast til þess að álverið fái sérstakann afslátt á kostnað skattgreiðenda? Iðnaðarráðherrann berst fyrir enn frekari ívilnunum og sérstökum afslætti á orkuverði fyrir Helguvíkur-hneykslið.
. - Bara að rifja það upp, að Heimdellingar eru á móti fleiri álverum
- Bréf sem atvinnuvega- og umhverfisráðherra getur ekki hunsað

Staðreyndir sem hafa verið að koma fram í dagsljósið undanfarin ár og eru til þess fallnar að koma Landsvirkjun í verulegan vanda vegna tengingar á orkuverðinu við við verð á áli.
„Eitthvað annað“ er um 2,6 sinnum arðbærara en virkjanir og álversuppbygging þegar mælt er í vergri þjóðarframleiðslu. Þetta segir Guðbjört Gylfadóttir, doktor í iðnaðar-og kerfisverkfræði í opnu bréfi sem hún sendi Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútveg- og landbúnaðarráðherra, en málefni umhverfisráðuneytisins heyra undir hans embætti.
Guðbjört bendir á að í skýrslu Bank og America og Merrill Lynch hafi gert fyrir alþjóðlega ráðstefnu málma- og námuvinnslu, komi fram að núverandi staða á álmarkaði sé ekki ýkja björt.
Fram kemur í bréfi Dr Guðbjartar að í dag er verð á áli, miðað við þriggja mánaða framvirka samninga, 1847,5 Bandaríkja-dollarar á tonnið.
Guðbjört segir að samkvæmt greiningu hjá Bloomberg þurfi markaðsverð áls að vera 2182 dalir á tonnið til að framleiðsla upp á 30 milljón tonn komi út á sléttu.
„Þannig að þrátt fyrir að álverð hækki upp í hæsta verð sem framvirkir samningar gera ráð fyrir, þá er það ekki nóg til að Alcoa komi út á sléttu miðað við núverandi framleiðslu.
Niðurstaðan er sú sama og Alcoa sjálft er búið að komast að, fyrirtækið þarf að framleiða minna af áli,“ segir Guðbjört í bréfinu.
Fáir mæla með fjárfestingu í áli
Þegar allir þessir þættir eru teknir saman segir Guðbjört að fáir mæli með fjárfestingum í álfyrirtækjum. Þannig sé Alcoa gefin hlutlaus fjárfestinga-einkunn í fyrrnefndri skýrslu.
Aftur á móti hafi þrír greiningaraðilar nú í maí metið stöðu fyrirtækisins þannig að það standi ekki undir væntingum eða að selja eigi hlutabréf í því.
Þá hafi matsfyrirtækið Moody‘s tilkynnt í desember að það íhugi að setja skuldbindingar Alcoa í ruslflokk, en í dag er það í flokk Baa3 með neikvæðum horfum.
Hún segir að í ljósi þessarar stöðu skuli ekki neinn undra að samningar hafi ekki náðst á milli Landsvirkjunar og Norðuráls vegna rafmagnsverðs.
„Ef Alcoa, sem er miklu stærra en Norðurál og nær þ.a.l. betri samlegðaráhrifum ætlar að draga saman segl, þyrfti Norðurál helst að fá borgað með rafmagninu sem það þarf til álfram-leiðslunnar svo það borgaði sig að stækka Helguvík.“
Bréf Guðbjartar í heild sinni á Facebook-síðu hennar
![]() |
„Eitthvað annað“ arðbærara en álið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Kjaramál, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:37 | Facebook
Athugasemdir
Guðbjartar Gylfadóttur, íslensks starfsmanns Bloomberg í New York, til Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra. Í bréfi sínu heldur Guðbjört því fram að áliðnaður sé vonlaus grein og allt sé þar á fallandi fæti. Þrátt fyrir að vinna hjá „fyrirtæki sem hefur nær allan sinn hagnað af því að selja upplýsingar“ þá má draga þá eina ályktun að greinarhöfundur hafi ekki skilið þau gögn sem hún notar til að komast að niðurstöðu. Við snögga yfirferð er hægt að benda á eftirfarandi villur og rangfærslur.
1. Því er haldið fram að „það borgi sig ekki að framleiða meira ál í heiminum í bili.“ Þetta er alrangt enda er búist við því að notkun áls aukist um 15 milljón tonn á næstu 4-5 árum.
2. Alcoa er ekki að tapa á álframleiðslu. Með orðum Klaus Kleinfeld forstjóra Alcoa: „all segments are profitable“ . Höfundurinn hefur annað hvort ekki lesið uppgjör Alcoa, eða þá ekki skilið það.
3. Þá má benda á að kaupendur á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum virðast ósammála niðurstöðum höfundar en í maí hefur verð hlutabréfa í Century Aluminum, móðurfélagi Norðuráls, hækkað um 30%.
4. Alcoa framleiðir ekki 30 milljón tonn af áli á ári. Þeir framleiða um 4,2 milljónir tonna af áli á ári. Það munar 26 milljónum tonna og augljóst að greinarhöfundur misskilur algerlega þær upplýsingar sem verið er að skoða.
5. Alcoa er ekki að draga úr framleiðslu um 2-3 milljónir tonna enda virðist höfundur ekki hafa minnstu hugmynd um það hvað grafið sem hún er að lesa sýnir. Samkvæmt Alcoa mun fyrirtækið auka framleiðslu um 15 þúsund tonn á næsta ársfjórðungi.
6. Grafið sem vitnað er í er mikið notað í áliðnaði. Allir sem eitthvað fylgjast með og þekkja áliðnað kunna góð skil á því. En ekki höfundur greinarinnar sem telur sig geta lesið út úr því eitthvað um framleiðslumagn Alcoa. Grafið segir nákvæmlega ekkert um það heldur er þetta kostnaðarlínurit sem sýnir kostnað við framleiðslu áls á heimsvísu. Þannig eru um 30 milljón tonn í heiminum framleidd með tilkostnaði sem er undir 2000 dollurum. Álverið með lægsta framleiðslukostnað í heiminum framleiðir tonn af áli fyrir 1400 dollara. Það er því ekki um það að ræða að það kosti 1400 dollara að framleiða ekkert – það er misskilningur hjá höfundi greinarinnar. Reyndar byggir nánast öll umfjöllun hennar í greininni á misskilningi og þekkingarskorti sem er ótrúlegur miðað við menntun höfundar.
7. Það sem Alcoa sýnir er að þeir sem framleiðandi eru að reyna að bæta samkeppnisfærni sína með því að loka óhagkvæmum einingum og fjárfesta í hagkvæmari rekstrareiningum. T.d. þýðir þetta að gömlum álverum í Evrópu er lokað.
8. Rétt er að fagna umhverfisvitund höfundar sem telur það vinnuveitanda sínum til tekna að nota ekki dósir heldur niðurbrjótanleg glös. Það er þó líklega frekar uppgjöf fyrir því að samstarfsmenn höfundar hafa hent dósum í ruslið í stað þess að nota endurvinnsluílátin. Áldósir eru nefnilega eins umhverfisvænar og nokkrar umbúðir geta verið. Lítið mál er að endurvinna þær og ef höfundur kemur dósinni sinni í endurvinnslu eru allar líkur á því að innan 60 daga sé einhver annar búinn að drekka annan gosdrykk úr dós sem unnin er þeirri fyrri.
9. Álið hefur auk þess verið eftirsótt t.d. í bílaiðnaði til að draga úr eldsneytisnotkun og þar með gróðurhúsaáhrifum. Svipaða sögu má segja af áli og umbúðaiðnaði, matvara geymist betur í álfóðruðum umbúðum og það hefur jákvæð umhverfisáhrif.
10. Höfundur vísar einnig í skrif Andra Snæs Magnasonar þar sem spurt er hvaðan 5700 ný störf hafi komið frá árinu 2011, - á tímum þegar nánast engar álvers eða virkjunarframkvæmdir hafa farið fram. Í því sambandi má benda á að um 4500 manns eru í störfum sem eru að hluta eða öllu leiti greidd niður af Vinnumálastofnun.
Kv.Sigurjón Vigfússon
Rauða Ljónið, 28.5.2013 kl. 22:07
Sæll Sigurjón
Það dregur ekki úr trúveruleika Guðbjartar að hún skuli vera starfsmaður þessa fjölþjóða fréttamiðils nema síður væri. Það er ekki hún sem er aðð halda því fram að vegur áliðnaðar hefur verið á fallandi fæti í langan tíma.
Það hefur reyndar verið rætt um þetta vandamál í langan tíma og nægir að nefna orð forstjóra Landsvirkjunar um áhyggjur hans um verðtengingu orkunnar við við álverð á heimsmarkaði sem hefur farið lækkandi um langan tíma.
Þetta eru ekki hennar orð heldur skýrir hún frá niðurstöðu í nýrri skýrslu um vandann í áliðnaði heimsins. Segir orðrétt:
„Í glænýrri 363 blaðsíðna skýrslu Bank of America/Merrill Lynch (héreftir nefnd: „BoFA og ML“), sem nefnist „2013 alþjóðleg ráðstefna um málma og námavinnslu, nýr raunveruleiki: Þeir hæfustu lifa af“ (e. 2013 Global Metals & Mining Conference, A new reality: survival of the fittest) sem unnin var fyrir ráðstefnu stjórnenda í þessum iðnaði sem fram fór 14.–16. maí á Spáni, er að finna greiningu BoFA og ML á horfum stórfyrirtækja í þessum iðnaði ásamt spá um verð á málmum. Þar segir á blaðsíðu 52-56 í greiningu á Alcoa m.a.:
„Meginhluti tekna AA (sem er hlutabréfaauðkenni Alcoa) er tilkominn vegna álframleiðslu þess, þar sem hækkandi kostnaður og offramboð er áhyggjuefni.“
Skýrslan útskýrir að vegna hækkandi leigu á vöruhúsum, þar sem mikið magn af áli er nú geymt gæti orðið til þess að Alcoa og aðrir álframleiðendur neyðist til að taka það úr vöruhúsum og selja álið á mjög óhagstæðum markaði.
Skýrslan minnir einnig á það að Moody's tilkynnti 18. desember sl. að það væri að íhuga að setja skuldbindingar Alcoa í ruslflokk, en það flokkar Alcoa nú sem Baa3, þar að auki með neikvæðar horfur. Standard og Poor´s og Fitch flokka bæði Alcoa með neikvæðar horfur á skuldbindingar, en til samanburðar má benda á að íslenska ríkið er með stöðugar horfur hjá öllum þessum greiningaraðilum“ (heimild Bloomberg 27. maí).
Það er von að þér bregði við kæri starfsmaður í áliðnaðinum. Ekki gengur að vitna í aðila eins og Klaus Kleinfeld forstjóra Alcoa: „all segments are profitable“ . Hann er ekki trúverðugur um hag þessa fyrirtækis í opinberri umræðu um Alcoa nema síður væri.
Það er heldur klént hjá þér í þessari umræðu að bera á borð einhverjar klysjur úr ykkar áróðursgögnum.
Það er bara hallærislegt.
Þessi iðnaður skilar reyndar litlum arði í hreinum gjaldeyristekjum til íslensku þjóðarinnar og er afar fjámagnfrekur fyrir ríkissjóð svo ekki sé meira sagt.
Ekki ferðu að véfengja þau gögn sem hún vísar í og flytur bara frétt um málefnið frá alþjóðlegri ráðstefnu um stöðu málmiðnaðar í heiminum.
Kristbjörn Árnason, 29.5.2013 kl. 00:15
Kristbjörn. Þessi grein er ekki frá Sigurjóni komin, heldur er þetta svar Alcoa við þeim rangfærslum, þekkingarleysi og hlutdrægni Guðbjartar í fullyrðingum sínum. Hún kann einfaldlega ekki að lesa úr gögnunum og verður sér til ævarandi skammar i fanatíkinni. Lestu nú aftur það sem Sigurjón peistar hér. Það eru tvær hliðar á öllum málum og það er algerlega óþarft af Guðlaugu að mistúlka og ljúga andúð simni til fulltyngis. Það er nóg af neikvæðum flötum sem draga má fram um áliðnaðinn, sem byggja á staðreyndum. Með þessari útekt sinni þekkingarleysi og óheiðarleika leikið öllu andófi sínu í hendur álrisans og eyðilagt á einum degi allt andóf hér og grafið undan trausti til náttúruverndarsinna. Nokkuð vel af sér vikið. Ætli hún sé á launum hjá Alcoa sem flugumur? Manni er næst að halda það eftir þetta mónúmental klúður hennar. Alcoa ætti allavega að senda henni medalíu fyrir hjálpina.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.5.2013 kl. 05:01
"Sjaldan veldur einn þá tveir deila... nema deilt sé með tveimur".
Óskar Guðmundsson, 29.5.2013 kl. 08:47
Fallegt er ljóðið Næturljóð á Fjörðum og eru bæði lag og texti eftir Böðvar Guðmundsson. Það er alveg ljóst að höfundur hefur ekki reiknað með álveri í náttúrustemmingum Jón Steinar.
En nú hafa borist miklu meiri og nánari fréttir af stöðu áliðnaðarins í heiminum og af Alcoa. M.ö.o. allt er rétt sem Dr Guðbjört verkfræðingur segir í bréfi sínu til ráðherrans.
Í Guðs friði.
Kristbjörn Árnason, 3.6.2013 kl. 16:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.